Hvar viltu búa? Þú færð frekar þá íbúð sem þú vilt ef þú leggur fram bankaábyrð
Tilvonandi leigutaki íbúðarhúsnæðis vill oftast geta ráðið því hvar hann býr. Þegar leigjandi býður fram bankaábyrgð fyrir leigugreiðslum eykur hann líkurnar á að verða sér úti um húsnæði á þeim stað sem hann óskar að búa. Orðið bankaábyrgð hljómar eins og hræðileg kvöð í eyrum margra enda eru ekki allir sem geta útvegað hana. Það vita einnig þeir sem leigja út húsnæði, enda er það oft sama fólkið sem ekki getur útvegað bankaábyrgð og getur ekki greitt húsaleigu, lendir í vanskilum og yfirgefur húsnæðið með uppsafnaða húsaleiguskuld. Engum er því greiði gerður með því að leigja fólki húsnæði sem ekki getur lagt fram slíka ábyrgð. Það getur virkað eins og að aðstoða fólk við að koma sér í slæmar skuldir. Þeir sem leggja fram bankaábyrgð hafa því meiri líkur á að fá húsnæði við sitt hæfi.

Vanskil engum í hag
Íbúðareigandinn hefur engan hag af vanskilum. Hann verður alltaf að standa straum af öllum kostnaði vegna húsnæðisins hvort heldur sem húsaleiga er greidd eða ekki. Auk þess sem fasteignalán hafa hækkað mikið undanfarin ár og því hafa fjölmörg fasteignafélög farið í gjaldþrot. Stór fasteignafélög sem eiga atvinnu eða skrifstofuhúsnæði á besta stað á Íslandi geta hagnast með því að hafa húsaleigu háa og ráða því við það þegar einhverjar leigugreiðslur innheimtast ekki. En eins og sést hefur síðustu ár, geta stóru fasteignafélögin líka farið á hausinn.

Hagsveiflur og afborganir húsnæðislána
Þeir sem leigja út íbúðir til einstaklinga þykja hinsvegar góðir ef þeir ná að standa á sléttu um hver mánaðarmót. Ef leigutekjurnar hrökkva fyrir afborgunum, viðhaldskostnaði og lágmarks rekstrarkostnaði. Tekjur þeirra myndast aðallega á grundvelli sveiflna í hagkerfinu til dæmis þegar vísitala byggingakostnaðar hækkar. Þá getur verið hagstæðara að kaupa húsnæði en að byggja nýtt. Ef enginn byggir íbúðir verður húsnæðisskortur á markaðinum og verð fasteigna hækkar. Þegar verðið nær svo hámarki fer aftur að verða hagstætt að byggja nýtt húsnæði og þá stendur verð íbúða í stað eða fer lækkandi, til dæmis ef byggt er of mikið af nýju húsnæði.

Gagnkvæmt traust milli leigutaka og leigusala
Tíminn þangað til fasteignaeigandi fer að sjá einhvern ávöxt af því að eiga samskipti við leigjendur getur því verið langur og getur reynst mörgum íbúðareigandanum ofviða. Bankaábyrgð er því nokkurskonar undirstrikun á gagnkvæmu trausti sem er mikilvægt fyrir leigusalann. Leigutakinn gengur frá Bankaábyrgðinni við bankann og leigusalinn andar léttar fyrir vikið. Leigusalinn fær þá leiguna greidda, og á fyrir vikið auðveldara með að standa straum af kostnaði og sjá til þess að húsnæðið fái eðlilegt viðhald. Fjölmargir leigusalar þurfa að nota launatekjur sínar til að niðurgreiða kostnað af útleigunni. Þetta gera þeir stundum svo árum skiptir í þeirri von um að húsnæðið muni síðar hækka í verði.

Kostir bankaábyrgðar fyrir leigutaka
Leigutaki sem leggur fram bankaábyrgð þarf almennt ekki að afhenda íbúðareiganda, sem hann oft veit lítil sem engin deili á, fyrirframgreiðslu á húsaleigu fyrir nokkra mánuði. Peningar hans eru því öruggir í bankanum. Leigutaki veit því að ef hann stendur við sinn hluta leigusamningsins, þá getur hann sótt bankaábyrgðina í bankann að leigutíma loknum. Fyrirframgreiðsla er trygginarfé sem leigusala ber að halda aðskildu frá sínum eigin fjármunum samkvæmt húsaleigulögum. Verði leigusali gjaldþrota getur leigutaki tapað tryggingarfénu. Ef leigusali er félag með takmarkaða ábyrgð og félagið verður gjaldþrota, þá er enginn persónulega ábyrgur fyrir fjárskuldbindingum félagsins. Fyrirframgreitt tryggingafé getur þá verið, eins og sagði í ævintýrinu „týnt og tröllum gefið“. Bankaábyrgðin er hinsvegar örugg í höndum bankans og enginn getur við henni hreyft, standi leigutaki við leigusamninginn.

Ein ummæli við “Bankaábyrgð, öryggi fyrir leigjendur?”

  1. Sindri
    27. feb, 2014 at 14:37 #

    Fróðlegur pistill.